Jordan Spieth er í hættu á að missa þátttökurétt sinn á PGA-mótaröðinni ef fram heldur sem horfir. Spieth er kominn í 51. sæti styrkleikalistans sem er versta staða hans í sjö ár.

Komnir eru 919 dagar síðan Jordan Spieth sem var um tíma besti kylfingur heims vann síðast golfmót á PGA-mótaröðinni. Kylfingar tryggja sér fimm ára þátttökurétt með því að vinna mót og hefur Spieth því þrjú ár til að vinna mót og endurnýja þátttökuréttinn.

Þegar Spieth vann síðast á Opna breska meistaramótinu var stutt síðan Spieth vann eftirminnilegan sigur á Travelers mótinu. Þar setti Spieth niður högg úr sandgryfju sem innsiglaði sigurinn og fagnaði hann ógurlega með kylfusvein sínum.

Myndbandið frá þessu má sjá hér fyrir neðan og var þetta á margan hátt táknrænt fyrir það sem koma skyldi.

Hinn 24 ára gamli Spieth var að vinna tíunda mót sitt á PGA-mótaröðinni og mánuði síðar vannst ellefta mótið og þriðji risatitillinn á Opna breska.

Árið 2017 reyndist Spieth farsælt því hann var í öðru sæti á peningalista PGA-mótaraðarinnar. Sigrarnir á Travelers og Opna breska áttu stóran þátt í því en einnig að Spieth skyldi tólf sinnum enda meðal tíu efstu.

Síðustu tvö ár hafa hinsvegar ekki reynst Spieth farsæl. Í síðustu 38 mótum sem Spieth hefur tekið þátt í á PGA-mótaröðinni hefur Spieth þrisvar náð þriðja sæti en aldrei ofar en það. Heilt yfir hefur hann níu sinnum náð meðal tíu efstu.

Í fyrsta móti þessa árs lenti Spieth í 55. sæti sem þýddi að hann var ekki lengur meðal fimmtíu efstu á opinberum styrkleikalista heimsins í golfi. Er það í fyrsta sinn síðan í ágúst 2013 á fyrsta tímabili Spieth sem atvinnukylfingur sem hann er ekki meðal fimmtíu efstu á þessum lista.

Á þeim sjö árum sem eru liðin síðan Spieth vann sitt fyrsta mót á PGA-mótaröðinni hefur hann eytt um það bil jafn löngum tíma fyrir neðan fimmtugasta sæti og í efsta sæti heimslistans eða 26 vikur.

Spieth með Silfurkönnuna eftirsóttu sem kylfingar fá fyrir að vinna Opna breska meistaramótið í golfi
fréttablaðið/getty

Fimm ár eru liðin frá besta ári Spieth þegar hann virtist ætla að gera tilkall til krúnunnar sem besti kylfingur heims á sama tíma og það virtist vera að fjara undan Tiger Woods. Spieth sem kemur frá Texas virtist vera tilbúinn sem arftaki Woods og byrjaði tímabilið af krafti.

Spieth vann fyrstu tvö risamót ársins, Masters-mótið og Opna bandaríska meistaramótið og það með nokkrum yfirburðum.

Spieth var meðal efstu kylfinga allt þar til undir lokin á Opna breska meistaramótinu en fataðist flugið á næst seinustu holunni og var einu höggi frá því að komast í bráðabana. Með því kom Spieth í veg fyrir að hann gæti unnið alslemmuna (e. grand slam), að vera handhafi allra fjögurra risatitlanna á sama tíma.

Það sló Spieth ekki út af laginu því hann lenti í öðru sæti á PGA-meistaramótinu í lok árs, þremur höggum á eftir Jason Day. Spieth fylgdi því eftir með því að vinna lokamót ársins (e. Tour Championship) og með því Fedex-bikarinn. Hann var í árslok valinn kylfingur ársins.

Spieth náði ekki að fylgja þessu magnaða ári eftir næstu tvö árin þegar Spieth vann fjögur mót, þar af eitt risamót en sem þykir samt gott hjá flestum kylfingum.

Síðan þá hefur allt gengið á afturfótunum og virðist Spieth skorta allt sjálfstraust þegar hann slær þessa dagana. Hann veit sjálfur að pressan eykst með hverju móti en virðist ekki vera farinn að sjá lausn við vandamálunum.

Spieth fagnar eftir að hafa sett niður högg úr sandgryfju fyrir titlinum á Travelers mótinu
fréttablaðið/getty

Nú er ljóst að Spieth þarf að fara að spýta í lófana ef hann ætlar sér að halda þátttökuréttinum á PGA-mótaröðinni, sterkustu mótaröð heims.

Tvö og hálft ár eru liðin síðan hann vann síðast mót og hefur hann þrjú ár til að vinna næsta mót, annars á hann í hættu að missa þátttökurétt sinn á mótaröð þeirra bestu.

Spieth er, þrátt fyrir ungan aldur, 93. sigursælasti kylfingurinn frá upphafi á PGA-mótaröðinni og 30. sigursælasti kylfingurinn á risamótunum fjórum sem gefur til kynna að hann sé hvergi nærri hættur.

Þá vantar Spieth aðeins PGA-meistaramótstitilinn til þess að verða fimmti einstaklingurinn sem nær að ljúka alslemmunni, að hafa sigrað öll risamótin fjögur.