Fyrrum liðs­fé­lagarnir, heims­meistarnir og nú erki­fjendurnir Sir Lewis Hamilton og Fernando Alon­so rifu upp gömul sár í belgíska kapp­akstrinum um ný­liðna helgi þar sem sam­stuð þeirra á fyrsta hring keppninar varð til þess að Hamilton féll úr leik.

Hamilton var um að kenna þar sem hann gaf Alon­so ekki nægi­lega mikið pláss í 14. beygju. Af­leiðingar þess urðu þær að bílar þeirra snertust og bíll Hamilton hlaut varan­legar skemmdir sem sáu til þess að þátt­töku hans í kapp­akstrinum lauk.

„Því­líkur hálf­viti!" sagði Fernando Alon­so á sam­skiptar­ás Alpine liðsins eftir við­skiptin við Hamilton. „Lokar á mig af utan­verðunni. Við áttum frá­bæra byrjun en þessi maður kann bara að aka úr fyrsta sæti," bætti hann við og vísar þar til ó­fara Hamiltons á tíma­bilinu sem hefur þurft að sætta sig við ó­venju­lega stöðu í bíl Mercedes, aftar á rás­línunni en hann er vanur.

Hamilton viður­kenndi eftir á mis­tök sín en hann vildi ekki biðja Alon­so af­sökunar. „Ekki eftir það sem hann sagði um mig. Ég vil lítið svara þessu en það er gott að vita hvað honum finnst um mig. Þetta var ó­vilja­verk og ég tek á­byrgð á því. Það er það sem full­orðnir menn gera og svo höldum við á­fram. Ég gaf honum ekki nægi­lega mikið pláss. Ég er þakk­látur fyrir að vera á lífi og í góðu standi."

Höggið sem Hamilton fékk á sig við á­reksturinn var mikið og mun vafa­laust skilja eftir sig eftir­mála á Hamilton sjálfum en hann verður þó reiðu­búinn til þess að keppa um næst­komandi helgi á Zand­voort í Hollandi.