Vanda Sigurgeirsdóttir hefur verið í 116 daga í embætti frá því að hún endurnýjaði umboð sitt sem formaður KSÍ. Vanda vann yfirburðasigur á Sævari Péturssyni sem sóttist einnig eftir starfinu. Í kosningabaráttu sinni talaði Vanda mikið um 100 daga áætlun sína í starfi og þar ætlaði hún að ýta hinum ýmsu verkefnum af stað.

„Ég er einmitt núna að vinna skýrslu um 100 dagana til að senda á félögin,“ segir Vanda í skriflegu svari við fyrirspurn Fréttablaðsins um hvernig gengið hefði að fylgja eftir 100 daga áætlun sinni.

Vanda og Guðmundur Ari Sigurjónsson, samstarfsmaður hennar, tóku niður þau atriði sem félögin í landinu nefndu. „Við flokkuðum þau niður og við hjá KSÍ höfum verið að vinna að framgangi þeirra, annaðhvort að ljúka við eða koma í ferli. Þetta eru mörg og ólík verkefni sem snúa að þáttum eins og fræðslu, mótamálum, leyfiskerfi og stuðningi við félögin,“ segir Vanda.

Vanda hefur setið fundi með fimm ráðherrum til að leysa úr þeim vandamálum sem eru á borði KSÍ. „Við höfum rætt um stuðning ríkisvaldsins við knattspyrnu, um útbreiðslu, aðstöðu, lýðheilsu og þann félagslega og fjárhagslega ávinning sem fjárfesting í fótbolta og öðrum íþróttum hefur í för með sér. Við berum miklar væntingar um að þessir fundir muni skila sér í auknum stuðningi við KSÍ og félögin í landinu,“ segir Vanda.

Á næstunni ætlar Vanda svo með skrifstofu sína á ferð og flug um landið. „Þá ætlum við að vera með skrifstofu KSÍ á ferð um landið, þ.e. fara á staðina, vera með fundi og fræðslu, svara spurningum og þess háttar. Við hefjumst handa við þetta í ágúst/september.

Við höfum gert átak í dómaramálum, sem stendur enn, verðum í haust með fræðslu- og vinnudag fyrir barna- og unglingaráð og aðra aðila sem koma að því starfi, erum að undirbúa fræðslu- og vinnudag sem ber vinnuheitið: Hvernig bætum við árangur félagsliðanna okkar?, erum að vinna í ferðajöfnunarmálum, t.d. einhvers konar Loftbrúar-fyrirkomulagi og erum að þrýsta á sveitarfélög um uppbyggingu aðstöðu,“ segir Vanda.

Einnig er unnið að stefnumótun með hjálp UEFA. „Þá eru nokkrir starfshópar annaðhvort teknir til starfa eða eru í burðarliðnum, má þar nefna starfshóp um þjóðarleikvang og starfshóp um varalið. Ekki má gleyma einu stærsta málinu, sem er stefnumótun KSÍ til 2026. Þessa stefnumótun erum við að vinna með UEFA en þar á bæ hefur slík stefnumótun verið framkvæmd í mörgum löndum og skilað mjög góðum árangri.“