Hornarfjörður er með það til skoðunar að skipta yfir á gervigras á aðalvelli Sindra en þetta kom fram á fundi fræðslu- og tómstundarnefndar sveitarfélagsins. Þar er talað um mikilvægi þess að vera með gervigrasvöll í fullri stærð vegna lengingar mótsins og minnst á að Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður KSÍ, sé tilbúin að aðstoða í þeim viðræðum við opinbera aðila.

Fræðslu- og tómstundanefnd samþykkti að kanna kostnaðinn fyrir því að skipta yfir í gervigras á keppnisvellinum og hersu mikil röskun yrði af því.

Gísli Vilhjálmsson formaður Umf. Sindra greindi frá starfi félagsins á fundinum og minnist á fund með Vöndu í vikunni þar sem mikilvægi aðgengis að gervigrasvelli var rætt.

Það sé helst á Ísafirði og á Höfn þar sem óvissa er um aðgengi að gervigrasvelli í fullri stærð. Vanda hafi því boðist til þess að aðstoða Sindra í viðræðum við stjórnvöld þar sem það séu ekki styrkir til staðar til að greiða það.

Um leið vakti Gísli athygli á því að það þurfi að skipta um gras á aðalvelli félagsins og um gervigras í knatthúsi bæjarins, Bárunni.