Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður KSÍ, hefur staðfest orðróm þess efnis að hún hafi rætt við Heimi Hallgrímsson í sumar. Greint hefur verið frá því í fótboltahlaðvörpum að Vanda hafi rætt við Heimi um að taka við landsliðinu.

„Það er rétt að við Heimir töluðum saman í sumar. Ég ætla að öðru leyti ekki að fara út í það sem okkur fór á milli,“ segir Vanda í svari sínu við fyrirspurn Fréttablaðsins.

Hún segir þó að Arnar Þór Viðarsson landsliðsþjálfari sé á réttri braut með liðið.

„Það er stígandi í leikjunum og frammistöðunum. Við sjáum það til dæmis í þeirri staðreynd að liðið er taplaust í sex leikjum, og tölfræðin sem kemur úr greiningu á leikjunum styður það,“ segir hún.

Heimir þjálfaði íslenska landsliðið í fótbolta frá 2011 til 2018 með frábærum árangri. Hann var nýverið ráðinn þjálfari Jamaíku og tapaði fyrsta leik sínum gegn Argentínu í vináttuleik.