Ragnar Sigurðsson, fyrrum landsliðskempa og núverandi umboðsmaður fékk sér sæti í Íþróttavikunni með Benna Bó, sem sýnd er á Hringbraut alla föstudaga. Hörður Snævar Jónsson, íþróttastjóri Torgs, sat með Ragnari í settinu en þeir fóru yfir fréttir vikunnar. Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður KSÍ, fór í eftirminnilegt viðtal á RÚV þar sem hún þurfti tvisvar sinnum að stöðva viðtalið til að berjast við tárin.

„Kannski fyrsta spurningin sem vaknaði hjá mér er hvort hefði ekki verið hægt að taka þetta viðtal í Laugardal. Mögulega sent þannig sterk skilaboð til gestgjafanna að sniðganga mótið og RÚV hefði geta sparað skattpeninga okkar með því að vera bara heima.

Nei nei, þetta viðtal var mjög gott á sinn hátt en ég veit ekki hvort Vanda hafi verið að fá einhverja ómaklega gagnrýni. Ég hef ekki orðið var við hana allavega,“ sagði Hörður.

Benedikt spurði Hörð hvort Vanda væri ekki búinn að grafa sína eigin holu en Fréttablaðið greindi frá því að Vanda hefði ekki sagt alveg satt í viðtalinu út í Katar þegar hún sagði að enginn fjölmiðill hefði reynt að hringja í hana annar en Kristófer Helgason á Bylgjunni. „Hún hefur aðeins farið gegn þeim prinsippum sem maður átti von á. Sumt af þessu er stormur í vatnsglasi sem á ekki að hafa nein áhrif á stjórn KSÍ.“

Hann sagði að Vanda mætti alveg vera í Katar fyrir sér. En það sem vekti athygli er að það hafi verið fjölmörg íþróttamót í Persaflóa án þess að vekja nokkra athygli en fótboltinn væri að taka slaginn um bættan heim.