Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður KSÍ, átti erfitt með að ráða við tilfinningarnar þegar hún ræddi við Eddu Sif Pálsdóttur, fulltrúa Rúv í Doha, um ferð hennar til Katar og gagnrýnina sem KSÍ hefur setið undir síðastliðnar vikur.

Eins og Fréttablaðið greindi frá er Vanda í Katar ásamt Klöru Bjartmarz, framkvæmdastjóra KSÍ og Jörundi Áka Sveinssyni, yfirmanni knattspyrnumála, í tengslum við lokakeppni HM í knattspyrnu karla.

Í viðtalinu ræðir Edda Sif við Vöndu um áskoranir síðustu viku og hvort að Vanda sjái eftir því að hafa samþykkt æfingaleik gegn Sádi-Arabíu í aðdraganda HM.

Í því samhengi minntist Vanda á að upphæðin sem KSÍ hafi fengið hafi ekki verið veruleg.

Þegar talið berst að gagnrýni í garð Vöndu frá leikmönnum kvennalandsliðsins eftir að Aron Einar Gunnarsson fékk treyju í tilefni hundraðasta landsleiksins á Vanda erfitt með sig og biðst undan.

Hún segist eiga erfitt með að ræða þetta og er skipt yfir í annað málefni þegar viðtalið hefst á ný en þetta má sjá á 7:30 hér fyrir neðan.