Louis van Gaal, þjálfari hollenska landsliðsins sem hefur einnig stýrt liðum á borð við Manchester United, Barcelona og fleiri liðum, segir að það sé glórulaus ákvörðun og í raun algjört kjaftæði að HM í knattspyrnu fari fram í Katar á þessu ári.

Það var í árslok 2010 þegar Alþjóðaknattspyrnusambandið tilkynnti að HM 2018 skyldi fara fram í Rússlandi og 2022 í Katar. Þetta verður í fyrsta sinn í sögu mótsins sem það fer fram í Mið-Austurlöndunum.

Undanfarin ár hafa mannréttindasamtök reynt að vekja athygli á bágborinni aðstöðu innflutts vinnuafls ásamt áhyggjum af mannréttindabrotum sem eiga sér stað í landinu. Fyrir vikið hafa margir kallað eftir því að mótið verði fært.

„Ég hef áður minnst á það, að mér finnst fáránlegt að halda mótið í Katar. Það fer fram í landi sem Alþjóðaknattspyrnusambandið segir að knattspyrna sé í þróun en það er kjaftæði. Það skiptir engu máli. Þetta snýst eingöngu um peninga og auglýsingamöguleika. Það er eina ástæðan,“ sagði Van Gaal hreinskilinn.

Opnunarleikur HM fer fram þann 21. nóvember næstkomandi og stendur yfir í fjórar vikur.