Hollenski landsliðsþjálfarinn Louis van Gaal greindi frá því í gærkvöld að hann væri að glíma við krabbamein í blöðruhálskirtli og hefði laumast út af liðshóteli hollenska liðsins í síðasta verkefni til að gangast undir meðferð.

Hinn sjötugi van Gaal sagði að hann hefði ekki viljað trufla leikmenn sína í landsleikjahléi og því reynt að halda þessu leyndu. Hann hafi því farið á spítalann að kvöldi til í hvert sinn.

Hollendingurinn er að þjálfa hollenska landsliðið í þriðja sinn á starfsævinni en hann hefur einnig stýrt Barcelona, Manchester United, Bayern Munchen, Ajax og AZ Alkmaar.

Undir stjórn van Gaal lenti Holland í þriðja sæti á HM 2014.