Louis van Gaal, þjálfari hollenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, segir að krabbameinsmeðferðin sem hann hefur gengist undir undanfarna mánuði hafi gengið vel og að hann sé laus við meinið.

Þjálfarinn sagðist hafa gengist undir 25 geislameðferðir í samtali við hollenska fjölmiðilinn ANP og það virðist hafa skilað tilætluðum árangri því hann sé laus við krabbameinið.

Fyrr í mánuðinum greindi van Gaal frá því að hann hefði greinst með krabbamein í blöðruhálskirtli og að hann hefði laumast út af liðshóteli hollenska landsliðsins til að halda meðferðinni áfram í síðustu landsliðsverkefnum.

Hinn sjötugi van Gaal sem er að stýra hollenska landsliðinu í þriðja sinn lætur af störfum hjá Hollandi eftir HM í Katar síðar á þessu ári.