Virgil van Dijk fór í dag til London til þess að leggjast undir hnífinn vegna slita á krossbandi sem hann varð fyrir eftir tæklingu Jordan Pickford, markmanns Everton, í leik liðanna í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu karla fyrr í þessum mánuði.

Ekki hefur verið settur neinn tímarammi á endurkomu hollenska landsliðsmannsins en sagt er í enskum fjölmiðlum að aðgerðin hafi heppnast vel.

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, sagði svo á blaðamannafundi sem haldinn var vegna deildarleiks liðssin gegn West Ham United sem fram fer síðdegis á morgun að óvíst væri hvort Thiago Alcantara og Naby Keita verði klárir í slaginn í þeim leik.

Þá sagði Klopp enn fremur að meiðslin sem Fabinho varð fyrir í sigri Liverpool gegn Midtjyllandi í vikunni væru ekki alvarleg og hann verði vonandi búinn að jafna sig þegar landsleikjahléinu sem fram undan er lýkur.

Líkegt er að Fabinho muni missa af bæði leikjum Liverpool gegn Atalanta í næstu umferð Meistaradeildar Evrópu sem og stórleiknum við Manchester City í ensku úrvalsdeildinni þar á eftir.

Joël Matip er einnig á meiðslalistanum hjá Liverpool og af þeim sökum mun mikið mæða á hinum 19 ára Rhys Williams í næstu leikjum Liverpool.