Forráðamenn Manchester United eru í viðræðum við Ernesto Valverde um að taka við karlaliði félagsins í fótbotla út yfirstandandi leiktíð.

Talið er að Valverde eigi að stýra Manchester United út tímabilið og þá muni knattspyrnustjóri til frambúðar verða ráðinn og Mauricio Pochettino sé efstur á lista sem langtíma stjóri.

Þá er einnig talið að Manchester United hafi sett sig í samband við Rudi Garcia, sem lét af störfum hjá franska félaginu Lyon, um að stýra liðinu næstu mánuðina.

Mögulegt er einnig að Manchester United greiði PSG fyrir að losa Pochettino undan samningi hjá franska félaginu á næstu dögum og geri langtíma samning við Argentínumanninn.

Valverde hefur verið án knattspyrnustjórastarfs síðan hann lét af störfum hjá Barcelona í janúar árið 2020. Spánverjinn varð tvisvar sinnum spænskur meistari og vann konungsbikarinn einu sinni þau tvö og hálft ár sem hann var í starfi í Katalóníu.

Erik ten Hag, þjálfari hollenska liðsins Ajax, sem einnig hefur verið orðaður við starfið hjá Manchester United, sagði í samtali við fjölmiðla í gærkvöldi að forráðamenn enska félagsins hefðu ekki haft samband við hann.