Valur hefur vegferð sína í átt að Meistaradeild Evrópu í knattspyrnu karla, eða að öðrum kosti Evrópudeildinni, þegar liðið mætir norska liðinu Rosenborg í fyrri leik liðanna í forkeppni Meistaradeildarinnar á Origo-vellinum að Hlíðarenda klukkan 20.00 í kvöld.
Birkir Már Sævarsson, hægri bakvörður Vals, lék með norska liðinu Brann á árunum 2008 til 2014 og hefur þar af leiðandi háð margar rimmur við Rosenborg í gegnum tíðina.
„Þetta er náttúrulega stórt lið á skandínavískan mælikvarða og ljóst að þetta verða erfiðar viðureignir. Rosenborg er lið sem er ávallt í toppbaráttu í efstu deild í Noregi á meðan Valur væri líklega um miðja deild á þeim vígstöðum. Það er hins vegar klárlega gerlegt að slá þá úr leik og við trúum því að við getum það," sagði Birkir Már í samtali við Fréttablaðið.
„Það væri draumur að spila með uppeldisfélaginu í riðlakeppni Meistaradeildarinnar eða Evrópudeildarinnar. Það væri geggjað að upplifa Evrópukvöld á fallegu marskvöldi að Hlíðarenda. Ég er búinn að tikka í þau box að spila með landsliðinu á Evrópumóti og heimsmeistaramóti, nú er komið að því að komast á hærra stall með Valsliðinu," sagði Birkir Már enn fremur.
„Rosenborg var að ströggla í upphafi leiktíðarinnar, en hefur verið að finna fjölina undanfarið. Ég hef svo sem ekki fylgst mikið með leikjum liðsins, en kíki öðru hvoru á umræðuna um fótboltann í Noregi. Það er mikil pressa á þeim og ef að liðið trónir ekki á toppi deildarinnar eru þeir harðlega gagnrýndir. Það þarf þess vegna ekkert að vera að spilamennskan hafi verið slæm þó svo að liðið hafi legið undir gagnrýni," sagði bakvörðurinn geðþekki um andstæðing kvöldsins.
Athugasemdir