Valur lagði Stjörnuna að velli með einu marki gegn engu þegar liðin mættust í lokaleik þriðju umferðar Pepsi Max-deildar kvenna í knattspyrnu á Origo-vellinum að Hlíðarenda í kvöld.

Margrét Lára Viðarsdóttir skoraði sigurmark Vals í leiknum eftir tæplega hálftíma leik en það var Elín Metta Jensen sem átti stoðsendinguna í marki Margrétar Láru

Valur var sterkari aðilinn í leiknum og fékk mun fleiri færi til þess að skora en strax á fyrstu mínútu leiksins var Dóra María Lárusdóttir hársbreidd frá því að skora mark sumarsins.

Dóra María átti skot frá miðju vallarins eftir upphafsspyrnu leiksins sem fór yfir Birtu Guðlaugsdóttur markvörð Stjörnunnar en boltinn hafnaði í stönginni.

Breiðablik og Valur eru jöfn að stigum með níu stig á toppi deildarinnar en Þór/KA, Stjarnan og Fylkir koma þar á eftir með sex stig hvert lið.