Valsmenn unnu tveggja marka sigur 26-24 á Haukum og komust með því upp að hlið Hauka og Selfyssinga þegar deildarkeppnin í Olís-deild karla er hálfnuð.

Þá vann ÍBV lífsnauðsynlegan sigur á Fram fyrr í kvöld og lyftu Eyjamenn sér upp fyrir Fram í níunda sætið eftir að hafa tapað síðustu fjórum þar áður.

Í Origo-höllinni voru heimamenn í liði Vals með frumkvæðið stærstan hluta leiksins en Haukar gáfust ekki upp og náðu að jafna metin þegar fimm mínútur voru til leiksloka í stöðunni 22-22.

Valsliðið reyndist sterkara á lokasprettinum og luku leiknum á 4-2 spretti þar sem Agnar Smári Jónsson reyndist Valsliðinu drjúgur.

Í Vestmannaeyjum voru það gestirnir úr Safamýrinni sem voru með frumkvæðið í fyrri hálfleik en Eyjaliðið náði að innbyrða 29-28 sigur á lokakafla leiksins.