Valur varð í kvöld Íslandsmeistari í handbolta karla en Valsliðið tryggði sér Íslandsmeistaratitiinn með 34-29 sigri í seinni leik liðanna í úrslitaeinvíginu um titilinn að Ásvöllum í kvöld.

Samanlagt fór Valur með átta marka sigur af hólmi í einvíginu en Hlíðarendaliðið vann þriggja marka sigur, 32-29, í fyrri leiknum í Origo-höllinni.

Það var aldrei spurning hvoru megin sigurinn myndi enda í seinni viðureigninni. Vörn Vals var firnasterk í leiknum og þar fyrir aftan varði Martin Nagy vel, líkt og hann gerði raunar í fyrri leiknum einnig.

Anton Rúnarsson var markahæstur hjá Val með 10 mörk en hann gengur til liðs við þýska félagið Emsdetten seinna í sumar.

Vignir Stefánsson og Agnar Smári Jónsson komu næstir með sjö mörk hvor. Finnur Ingi Stefánsson og Róbert Aron Hostert bættu svo þremur mörkum við í sarpinn hjá nýkrýndum Íslandsmeisturum.

Róbert Aron var einnig með sex lögleg stopp á hinum enda vallarins. Alexander Örn Júlíusson og Einar Þorsteinn Ólafsson voru svo með fimm stopp hvor og Þorgils Jón Svölu Baldursson fjögur.

Hjá Haukum, sem urðu deildarmeistarar fyrr á leiktíðinni var Orri Freyr Þorkelsson lang atkvæðamestur með sjö mörk.

Þetta er í 23. skipti sem Valur verður Íslandsmeistari í handbolta karla en liðið vann titilinn síðast árið 2017.

Mynd/Baldur Þorgilsson