Valur sendi frá sér tilkynningu í dag þar sem fram kom að félagið hefði ákveðið að rifta samningnum við Christopher Rasheed Jones.

Jones gaf ekki kost á sér í seinni hálfleik í tapi Valsmanna gegn Keflavík í gær. Í ljósi þess trúnaðarbrests hafi félagið ákveðið að rifta samningi hans við félagið.

Bakvörðurinn kom til Íslands með gott orðspor eftir að hafa leikið í Frakklandi og var með nítján stig og fjórar stoðsendingar að meðaltali í fjórum leikjum.

Þá kemur einnig fram í tilkynningu Vals sem sjá má hér fyrir neðan að Valsliðið sé að leita að nýjum erlendum leikmanni.

Körfuknattleiksdeild Vals hefur rift samningi víð Christopher Rasheed Jones, sem leikið hefur með liðinu í Dominos deild karla.

Jones lék sinn síðasta leik með liðinu gegn Keflavík í gærkvöldi. Þar kaus hann að taka ekki þátt í leiknum í síðari hálfleik. Í ljósi þess trúnaðarbrests sem augljóslega er kominn upp á milli Jones og annara leikmanna og þjálfara liðsins, er ljóst að ferli hans hjá Val er lokið og samningi við hann því rift.

Jones kom hingað til lands í upphafi tímabilsins eftir að hafa getið sér gott orð sem atvinnumaður í Frakklandi og með Louisville háskóla í Bandaríkjunum. Talsverðar vonir voru bundnar við komu hans til liðsins. Í fimm leikjum með liðinu skoraði hann að meðaltali 19 stig og átti tæpar fjórar stoðsendingar. Valur vann þrjá af fimm leikjum hans með liðinu.

Valur leitar nú að erlendum leikmanni til þess að styrkja leikmannahópinn fyrir baráttuna í Dominos deildinni.