KR og Valur hlutu í vikunni styrk frá Evrópska knattspyrnusambandinu (UEFA) vegna verkefnis sem tengist málefnum flóttafólks og hælisleitenda.  Félögin sendu inn sameiginlega umsókn og var umsóknin ein af 11 umsóknum sem hlutu styrk frá UEFA, en samtals voru umsóknirnar 23. Frá þessu er greint í tilkynningu á vef knattspyrnusambands Íslands.

Verkefnið ber heitið „Welcome to your neighbourhood / Velkomin í hverfið ykkar“ og er samstarfsverkefni KR og Vals með það að markmiði að hjálpa flóttafólki að aðlagast samfélaginu í Miðborg, Hlíðum og Vesturbæ. Félögin ætla að gera það með samvinnu skóla og Þjónustumiðstöðvar Miðborgar, Vesturbæjar og Hlíða.  Félögin vilja virkja foreldra barna í þessum hóp og þannig vonast til að þau verði partur af samfélaginu og auka þannig líkurnar á þátttöku barna þeirra í knattspyrnu. 

Aðildarsamböndum UEFA býðst að sækja um styrk í sérstakan sjóð vegna knattspyrnutengdra verkefna sem tengjast flóttafólki og hælisleitendum. Með sjóðnum, sem settur var á laggirnar árið 2017, eru knattspyrnusambönd í Evrópu hvött til að starfa með knattspyrnufélögum, samtökum eða öðrum aðilum sem starfa að málefnum flóttamanna og hælisleitenda í sínum löndum og stofna til knattspyrnutengdra verkefna sem styðja við samfélagslega aðlögun þeirra.

Hægt er að sækja um styrk fyrir ný verkefni, eða verkefni sem þegar eru hafin og getur upphæð styrksins numið allt að 40.000 evrum, og að hámarki 70% af kostnaði verkefnisins.  Ekki er hægt að sækja um styrk fyrir verkefni sem er lokið og hvert knattspyrnusamband / aðildarland UEFA getur sent eina umsókn.  Upphæð styrks UEFA í verkefni Vals og KR er 30.000 evrur eða rúmar 4 milljónir íslenskra króna.