Heil umferð fór fram í Domino's-deild kvenna í körfubolta í kvöld en um aðra umferð deildarinnar var að ræða.

Valur vann öruggan 110-75 þegar liðið fékk Snæfell í heimsókn en Valskonur unnu Grindavík örugglega í fyrst umferðinni.

Kiana Johnson skoraði mest fyrir Val eða 33 stig og Dagbjört Dögg Karlsdóttir kom næst með 23 stig. Sylvía Rún Hálfdanardóttir bætti svo 15 stigum í sarpinn fyrir Valsliðið.

Finnska landsliðskonan Veera Annika Pirttinen var atkvæðamest hjá Snæfelli með 18 stig og Chandler Smith fylgdi fast á hæla hennar með 16 stig.

Sumarkaupin stóðu sig hjá KR-liðinu

Hildur Björg Kjartansdóttir og Danielle Victoria Rodriguez fóru fyrir KR-liðinu sem er líkt og Valur með fullt hús stiga eftir 78-69 sigur sinn gegn Breiðabliki.

Hildur Björk skoraði 24 stig Danielle 20 stig en Sóllilja Bjarnadóttir sem gekk í raðir KR frá Blikum í sumar var þar á eftir með 14 stig.

Violet Morrow bar höfuð og herðar yfir leikmenn Breiðabliks en þegar upp var staðið hafði hún skorað 32 stig.

Keflavík og Skallagrímur nældu svo í fyrstu sigra sína í deildinni í vetur en Suðurnesjakonur unnu Hauka 65-54 og Borgnesingar lögðu Grindavík að velli 74-59.

Nýliðarnir án stig eftir tvær umferðir

Daniela Wallen Morillo skoraði lang mest fyrir Keflavík 33 stig talsins. Lovísa Björt Henningsdóttir lék hins vegar á als oddi fyrir Hauka og skoraði 31 stig.

Keira Breeanne Robinson dró vagninn fyrir Skallagrím með sínum 24 stigum og Emilie Sofie Hesseldal var með 16 stig og Maja Michalska 15 stig.

Kamilah Tranese Jackson var fremst meðal jafningja í jöfnu liði Grindavíkur með 16 stig og Ólöf Rún Óladóttir setti niður 15 stig.

Haukar, Keflavík, Skallagrímur og Snæfell hafa tvö stig hvert lið en Breiðablik, Grindavík og eru án stiga eftir tvo leiki.