Vals­menn taka á móti þýska stór­liðinu Flens­burg í riðla­keppni Evrópu­deildarinnar í hand­bolta í Origohöllinni á morgun. Upp­selt er á leikinn, bæði lið tap­laus í fyrstu tveimur um­ferðunum og Snorri Steinn Guð­jóns­son, þjálfari Vals segist finna það í að­draganda leiksins að ekki sé um að ræða hvers­dags­legan leik.

„Þetta er bara eitt af betri liðunum, ef ekki það besta, í þessari keppni," segir Snorri Steinn við Frétta­blaðið. „Flens­burg getur farið alla leið og unnið Evrópu­deildina. Það lá ljóst fyrir að þetta yrði erfiðast og stærsti leikurinn sem við gátum fengið.

Byrjunin hjá okkur skemmir heldur ekki fyrir, hún magnar upp stemninguna í fé­laginu og bara al­mennt tel ég í þessum hand­bolta­heimi. Byrjunin gerir það að verkum að það er upp­selt á leikinn og maður hefur fundið það í smá tíma núna að þetta er ekki ein­hver hvers­dags­legur leikur.“

Mikið var talað um það fyrir fyrsta leik Vals í riðla­keppni Evrópu­deildarinnar að með þátt­töku liðsins í mótinu fengist skýrari mynd af stöðu ís­lensks hand­bolta í saman­burði við hand­boltann annars­staðar í Evrópu. Hvernig finnst Snorra hafa tekist til hingað til?

„Við höfum alla­vegana unnið þessa leiki, það er rétt að mér fannst við renna dá­lítið blint í sjóinn í þessari keppni ég ætla ekki að fara dæma þessi lið sem við höfum mætt hingað til en við höfum á­byrgð að gegna, ekki bara fyrir okkur heldur líka fyrir hand­boltann í heild sinni hér á Ís­landi.

Því ef við hefðum ekki séð til sólar í Evrópu­deildinni þá hefði það verið um­hugsunar­efni og á­fellis­dómur á deildina hér heima, ekki bara yfir okkur. Auð­vitað erum við bara komnir með tvo sigra og getum enn tapað rest og ekki komist upp úr riðlinum, það yrðu von­brigði en að vera komnir í þá stöðu sem við erum í núna er bara geggjað.

Það er gaman að fá tæki­færi til þess að glíma við svona stór­lið á borð við Flens­burg.“

Það hafi verið al­gjört lykil­at­riði fyrir Vals­menn að vera komnir á blað í keppninni fyrir leikinn gegn Flens­burg.

„Þá var það mikil­vægt að sama skapi að vinna þessa deildar­leiki hér heima sem hafa komið á milli Evrópu­leikjanna. Ég lagði mikla á­herslu á það, þannig að við kæmum með kassann út í þessa Evrópu­leiki með gott sjálfs­traust í liðinu.

Ég óttaðist það ef við værum að fara mæta til leiks í leik á móti stór­liði eins og Flens­burg brot­hættir en það er ekki til­fellið.

Núna þurfum við bara að vera með fulla ein­beitingu á leikinn, ekki húllum­hæið í kringum hann og standa okkur, ná fram góðum leik. Sama hvernig fer þá vil ég að við getum í leiks­lok hafa sagst lagt okkur alla fram, gefið allt í þetta.“

Verk­efnið fram undan sé risa­vaxið.

„Ég er ekkert að tala okkur niður þegar að ég segi að það geti vel verið staðan að góður leikur hjá okkur gæti ekki dugað til. Ef Flens­burg spilar sinn besta leik þá vinna þeir hugsan­lega bara mörg lið í heiminum.

Númer 1, 2 og 3 hjá okkur er að við náum að spila góðan leik. Þannig verður stemningin í höllinni betri og við getum notið þess betur. Menn geta þá litið til baka og verið stoltir af þessum leik.“

Leikur Vals og Flens­burg í Evrópu­deildinni fer fram í Origohöllinni á morgun og hefst klukkan 19:45.