Valur er Íslandsmeistari í körfubolta karla eftir 73-60 sigur á Tindastól í oddaleik um Íslandsmeistaratitilinn í Origo-höllinni í kvöld. Þetta er fyrsti Íslandsmeistaratitill Vals í 39 ár.

Varnarleikur Vals þegar líða tók á seinni hálfleikinn skildi liðin að og varð til þess að heimamenn unnu þriðja heimaleikinn í úrslitaeinvíginu.

Á sama tíma þarf Tindastóll að sætta sig við silfurverðlaunin eftir tap í úrslitaeinvíginu í fjórða skiptið á síðustu 21 árum.

Eftir fjóra naglbíta til þessa var ljóst að það yrði ekkert skilið eftir á gólfinu í kvöld né á stuðningsmannapöllunum.

Sjúkraliðið bætti við fólki og slökkviliðið var með mannskap ef kæmi til þess að þeirra væri þörf en sem betur fer fór allt vel fram utan vallar.

Eins og oft áður í einvíginu voru það Stólarnir sem náðu fyrsta höggi. Þeir byrjuðu betur og komust fljótlega 13-3 yfir. Stærstu skytturnar hjá Val voru kaldar og var það helst Hjálmar Stefánsson sem var að finna netmöskvana í liði heimamanna.

Stólarnir héldu frumkvæðinu út fyrsta leikhlutann og inn í annan leikhluta en þá snerist leikurinn. Hringurinn virtist minni þegar Stólarnir sóttu sem geiguðu úr flestum skotum sínum.

Um leið voru Valsmenn naskari í varnarleiknum. Þvinguðu gestina í erfið skot, stálu boltum og fundu auðveldari leið að körfunni.

Þrjár sóknir í röð varð stolinn bolti að auðveldri körfu og Valsliðið leiddi skyndilega.

Hjálmar fór á kostum á báðum endum vallarins í kvöld.
Fréttablaðið/Valli

Gestirnir svöruðu um hæl og jöfnuðu metin skömmu fyrir lokaflaut fyrri hálfleiks. Afskaplega viðeigandi að staðan væri jöfn í hálfleik enda ekkert sem virtist ætla að skilja liðin að.

Þriðji leikhluti var sama uppskrift og í fyrri hálfleik.

Varnarleikur liðanna sem var til fyrirmyndar í fyrri hálfleik var jafnvel öflugari. Um tíma liðu þrjár og hálf mínúta án körfu.

Valsmenn voru skrefinu á undan en Stólarnir áttu yfirleitt svör og munaði aðeins einu stigi á milli liðanna þegar farið var í lokaleikhlutann, 50-49 fyrir Val. Aðeins 27 stig í leikhlutanum.

Badmus reynir að verja skot upp á tíundu hæð án árangurs.
Fréttablaðið/Valli

Valsvörnin herti skrúfurnar í fjórða leikhluta. Með hverri körfu sem heimamenn settu niður virtist örvæntingin aukast hjá gestunum.

Javon Anthony Bess hélt gestunum á lífi með tveimur körfum eftir að hafa látið lítið fyrir sér fara framan af leiks en aðrir voru daufari.

Með 9-1 kafla um miðbik fjórða leikhluta varð munurinn skyndilega tíu stig og ljóst í hvað stefndi.

Gestirnir reyndu og reyndu, en sama hvað þeir reyndu fundu þeir ekki lausn við vörn Vals né að verjast sóknarlotum Vals.