Karlalið Vals í handbolta fer beint í riðlakeppni Evrópudeildarinnar og mun því ekki þurfa að leika í undankeppni keppninnar um laust sæti í riðlakeppninni. Þetta varð endanlega staðfest í dag þegar að Evrópska handknattleikssambandið birti liðsniðurröðun fyrir keppnina.

Valsmenn hafa ráðið lögum og lofum hér heimafyrir í handboltanum. Liðið er ríkjandi Íslands-, bikar- og deildarmeistari og mun nú spreita sig af alvöru í Evrópu.

Undankeppni riðlakeppninnar fer af stað undir lok ágústmánaðar en riðlakeppni Evrópudeildarinnar mun síðan hefjast þann 25. október síðar á árinu.