Valur laut í lægra haldi 2-0 þegar liðið mætti slóvenska liðinu Maribor í seinni leik liðanna í fyrstu umferð í forkeppni Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu karla ytra í kvöld.

Þar af leiðandi tapaði Valur viðureigninni samanlagt 5-0 og fer því í aðra umferð í forkeppni Evrópudeildarinnar þar sem liðið mætir búlgarska liðinu Ludagorets.

Kolbeinn Sigþórsson lék í rúmar 20 mínútur fyrir sænska liðið AIK þegar liðið lagði armenska liðið Ararat Armenia að velli og komst áfram í aðra umferð með 4-3 sigri samanlagt.

Kolbeinn og samherjar hans hjá AIK mæta Valsbönunum Maribor í næstu umferð keppninnar.

Rúnar Már Sigurjónsson lék lungann úr leiknum inni á miðsvæðinu hjá kasakska liðinu Astana sem beið 3-1 ósigur gegn rúmenska liðinu Cluj. Astana er af þeim sökum úr leik í Meistaradeildinni en rimman fór samanlagt 3-2 fyrir Cluj.

Astana mætir Santa Coloma frá Andorra í annarri umferð forkeppni Evrópudeildarinnar.

Willum Þór Willumsson var ekki í leikmannahópi hvít-rússneska lðsins BATE-Borisov sem fór áfram með því að bera 2-1 sigur úr býtum á móti pólska liðinu Piast Gliwice.

Willum Þór meiddist í upphitun fyrir leikinn. Fyrri leik liðanna lyktaði með 1-1 jafntefli og leikirnir því samanlagt 3-2 BATE-Borisov.

Hvít-Rússarnir mæta norsku meisturunum, Rosenborg í næstu umferð keppninnar.