Valskonur, sem eru ríkjandi Íslands- og deildarmeistarar og er spáð deildarmeistaratitlinum bæði af fyrirliðum, þjálfurum og forráðamönnum liðanna sem og fjölmiðlamönnum, sækja Breiðablik heim í Smárann.Valur leikur án Helenu Sverrisdóttur í byrjun tímabils.

Stærstu félagaskipti sumarsins voru er Hildur Björg Kjartansdóttir söðlaði um frá KR til Vals. Blikar hafa hins vegar endurheimt tvær heimakonur en Sóllilja Bjarnadóttir er snúinn aftur eftir veru hjá KR og Ísabella Ósk Sigurðardóttir hefur jafnað sig á meiðslum sem héldu henni lengi utan vallar.

Skallagrímur, sem varð bikarmeistari fyrr á þessu ári, mætir Haukum í Ólafssal að Ásvöllum. Borgnesingar hafa haldið lykilleikmönnum sínum og bætt við sig Sönju Orazovic og Emblu Kristínardóttur. Skallagrímur sýndi það með því að leggja Val að velli í Meistarakeppni KKÍ um síðustu helgi, að liðið er til alls líklegt í vetur.

Haukar skiptu um þjálfarateymi, en í brúna eru komnir Bjarni Magnússon og Ingvar Guðjónsson sem gerðu liðið að Íslandsmeisturum árið 2018. Liðið er svipað að styrkleika og síðasta vetur, Bríet Sif Hinriksdóttir hefur bæst í hópinn, en að sama skapi er Sigrún Ólafsdóttir farin til Bandaríkjanna í skóla.

Keflavík, sem getur hæglega blandað sér í toppbaráttu deildarinnar, fær nýtt lið KR í heimsókn suður með sjó. Keflvíkingar halda áfram að treysta á góðan kjarna af leikmönnum sem félagið hefur alið upp. Kvarnast hefur úr þeim hópi, þar sem Þóranna Kika Carr-Hodge er farin til Bandaríkjanna í nám og Irena Sól Jónsdóttir er farin í Hauka. KR-liðið er hins vegar óskrifað blað eftir að hafa nánast skipt um leikmannahóp og þjálfara í sumar.

Að lokum mætast nýliðar Fjölnis og Snæfells í Dalhúsum. Það verður einkennilegt að sjá Snæfellsliðið án þess að Berglind og Gunnhildur Gunnarsdætur séu á parketinu. Snæfell er með bandarískan leikmann sem þekkir Hólminn, en Haiden Palmer er komin aftur þangað. Fjölnir er með þrjá sterka, erlenda leikmenn sem verða hryggjarstykkið í liðinu. Það eru Ariana Moorer sem þekkir deildina, hinn reynslumikli, litháíski miðherji Lina Pikcuite og írska landsliðskonan Fiona O‘Dwyer.