Valskonur í knattspyrnu eru komnar áfram í úrslitaleik 1. umferðar forkeppni Meistaradeildarinnar eftir sigur á Hayasa frá Armeníu nú í morgun. Leiknum lauk með 2-0 sigri Vals sem mætir annað hvort Pomurje frá Slóveníu eða Shelbourne frá Írlandi í næsta leik.

Það var Cyera Hintzen sem skoraði fyrsta mark leiksins fyrir Val á 14. mínútu. Valskonur voru mun sterkari aðilinn í leiknum og þrátt fyrir margar marktilraunir var það bara þetta eina mark sem skildi liðin að í hálfleik.

Mariana Sofia Speckmaier innsiglaði síðan 2-0 sigur Valskvenna með marki undir lokin, nánar tiltekið úr vítaspyrnu á 90. mínútu. Verðskuldaður sigur Vals því staðreynd.

Síðar í dag ræðst það hvort Valur mæti Pomurje eða Shelbourne í úrslitaleiknum. Þá mun Breiðablik einnig mæta norska liðinu Rosenborg í forkeppni Meistaradeildarinnar síðar í dag.