Ólafur Jóhannesson er tekinn við sem þjálfari karlaliðs Vals á nýjan leik. Hann tekur við af Heimi Guðjónssyni, sem lætur af störfum eftir slakt gengi liðsins undanfarið.Valur situr í fimmta sæti Bestu deildar karla með tuttugu stig, fjórtán stigum frá toppliði Breiðabliks, þegar þrettán umferðir hafa verið leiknar.

Er þetta langt frá þeim markmiðum sem liðið hafði sett sér í upphafi tímabils, enda er leikmannahópurinn mjög sterkur.Heimir tók við liði Vals eftir tímabilið 2019, einmitt af Ólafi, sem nú tekur aftur við. Heimir átti góðu gengi að fagna á sinni fyrstu leiktíð með liðið. Þá varð Valur Íslandsmeistari. Í fyrra hafnaði liðið hins vegar í fimmta sæti, þar sem það er einnig nú.

Ólafur þekkir hvern krók og kima hjá Val. Hann tók við liðinu árið 2014 og var þar í fimm ár. Ólafur átti góðu gengi að fagna í fyrra skiptið. Varð liðið bikarmeistari 2015 og 2016 og Íslandsmeistari 2017 og 2018.Ólafur stýrði FH fyrr á þessari leiktíð en var látinn fara eftir slappt gengi Hafnfirðinga. Eiður Smári Guðjohnsen tók við.

Ólafur hafði verið við stjórnvölinn hjá FH frá því hann tók við um mitt síðasta tímabil. Þetta er aðeins í annað skiptið frá aldamótum sem Valur skiptir um þjálfara um mitt tímabil. Það gerðist einnig árið 2009, er Valur var í sjötta sæti deildarinnar.

Þá var Willum Þór Þórsson látinn fara. Atli Eðvaldsson tók þá við liðinu og stýrði því út leiktíðina 2009. Atli tók einmitt við í júlí, líkt og Ólafur gerir nú.Fyrsti leikur Atla með Val var gegn KR, rétt eins og fyrsti leikur Ólafs. Valur heimsækir KR í Vesturbæinn næstkomandi mánudag. Þar á eftir fær Ólafur svo sitt fyrra lið, FH, í heimsókn á Hlíðarenda