Enski framherjinn Gary Martin, danski sóknartengiliðurinn Emil Lyng og samlandi hans Lasse Petry sem leikur alla jafna sem miðvallarleikmaður skrifuðu í dag undir samning við ríkjandi Íslandsmeistara í knattspyrnu Val.

Gary sem hefur leikið með ÍA, KR og Víkingi hér heima kemur til Vals frá norska liðinu Lilleström, Emil sem lék á sínum tíma með KA frá Haladás í Ungverjalandi og Lasse Petry sem er uppalinn hjá Nordsjælland kemur frá danska liðinu Lyngby. 

Samningur Gary við Val er til þriggja ára, Emil er samningsbundinn á Hlíðarenda næstu þrjú árin og Lasse Petry semur við Val til næstu tveggja keppnistímabila. 

Nokkrar breytingar hafa orðið á leikmannahópi Vals frá því að liðið lyfti Íslandsmeistaratitlinum síðsta haust. 

Andri Fannar Stefánsson, Guðjón Pétur Lýðsson, Dion Acoff, Tobias Thomsen og Patrick Pedersen hafa horfið á braut. 

Til þess að fylla þeirra skörð hefur Hlíðarendaliðið klófest Kaj Leó frá Bartalsstovu, Birni Snæ Ingason, Garðar Bergmann Gunnlaugsson og nú fyrrgreinda þrjá leikmenn.