Seinni leikur Vals og Slavia Prague í undankeppni Meistaradeildar Evrópu fer fram í Prag í dag. Tékkneska liðið leiðir eftir fyrri leik liðanna en sigurliðið fær þátttökurétt í riðlakeppni Meistaradeildarinnar.

Slavia Prague vann fyrri leik liðanna á Valsvellinum 1-0 þar sem Valskonur voru lengi af stað en náðu ekki að nýta meðbyrinn í seinni hálfleik til að jafna leikinn.

Um helgina varð Valur Íslandsmeistari eftir 3-1 sigur á Aftureldingu en klukkan 13:00 í dag fá Valskonur færi á að lengja tímabilið um rúmlega tvo mánuði.

Sigurliðið fær þáttttökurétt í riðlakeppninni þar sem bestu lið álfunnar, Lyon, Wolfsburg, Barcelona og fleiri lið bíða.

Þá fær sigurliðið um sjötíu milljónir íslenskra króna í sinn hlut til að standa straum af kostnaði þess að taka þátt í riðlakeppninni.

Til samanburðar fær liðið sem fellur úr leik á þessu stigi tuttugu milljónir.