Valskonum tókst ekki að snúa úrslitum fyrri leiksins sér í hag þegar Slavia Prague vann nauman 1-0 sigur á nýkrýndum Íslandsmeisturum Vals í umspili fyrir Meistaradeild Evrópu í dag.

Með því er ljóst að tékkneska liðið kemst í riðlakeppni Meistaradeildarinnar sem fer fram í vetur en Valskonur sitja eftir með sárt ennið.

Valur byrjaði leikinn af krafti og stýrði umferðinni í fyrri hálfleik. Færin voru Valskvenna en þær fundu ekki leiðina framhjá markverði tékkneska liðsins.

Í seinni hálfleik fengu heimakonur fín færi og komu boltanum meðal annars í netið hjá Söndru Sigurðardóttur en það var dæmt af vegna rangstöðu.

Það verður því ekkert íslenskt lið í riðlakeppninni í ár eftir að Breiðablik komst í riðlakeppnina á síðasta ári.

Ísland gæti þó átt fjölmarga fulltrúa í riðlakeppninni en margar af landsliðskonum okkar eru að keppa í umspilinu í dag og á morgun.