Valur vann annan leik sinn í röð í Olís-deild kvenna og saxaði á forskot Fram á toppi deildarinnar með 23-18 sigri á Stjörnunni í 6. umferðinni í kvöld.

Valskonur eru komnar með níu stig, aðeins stigi frá Fram en Stjarnan er áfram í sjöunda sæti deildarinnar með þrjú stig eftir sex leiki.

Jafnræði var með liðunum framan af og skiptust þau á mörkum fyrstu tuttugu mínútur leiksins og um leið forskotinu. Stjarnan náði tveggja marka forskoti, 7-5 en þá svaraði Valur með áhlaupi og leiddi í hálfleik 10-9.

Valskonur voru með frumkvæðið í seinni hálfleik og héldu forskotinu allan hálfleikinn þótt að Garðbæingar hafi aldrei verið langt undan. Náðu þær að koma muninum niður í tvö mörk þegar fimm mínútur voru eftir en lengra komust þær ekki.

Þórey Anna Ásgeirsdóttir var atkvæðamest í heimaliðinu með níu mörk, hjá gestunum var Díana Dögg Magnúsdóttir markahæst með fimm mörk.

Umferðinni lýkur svo með leik Selfoss og Hauka annað kvöld.