Valskonur mæta Keflavík í lokaumferð Pepsi Max-deildar kvenna á morgun þar sem jafntefli mun líklegast duga Valsliðinu til að landa meistaratitlinum.

Það yrði ellefti meistaratitill Valskvenna en sá fyrsti síðan árið 2010. Aðeins Breiðablik (17) hefur orðið Íslandsmeistari í kvennaflokki oftar.

Valur er með tveggja stiga forskot á Blika og markatalan er sautján mörkum betri og dugar þeim því jafntefli á morgun gegn Keflavík sem féll úr efstu deild á dögunum.

Takist Valskonum að landa meistaratitlinum á morgun verður það í fyrsta sinn sem eitt félag er handhafi Íslandsmeistaratitlanna í stærstu þremur boltagreinunum á Ísland.

Til þessa hefur engu félagi tekist að vera meistari í knattspyrnu, körfubolta og handbolta á sama tíma, hvorki í karla- né kvennaflokki.

Fyrr á árinu varð Valur Íslands-, bikar- og deildarmeistari bæði í Dominos-deild kvenna í körfubolta og Olís-deild kvenna í handbolta.

Valur varð Íslandsmeistari í fyrsta sinn í körfubolta í kvennaflokki fyrr á árinu.
fréttablaðið/sigtryggur ari

Til þessa hefur eitt félag fimm sinnum verið handhafi Íslandsmeistaratitilsins í tveimur greinum í kvennaflokki en aldrei öllum þremur.

Ármann varð Íslandsmeistari í handbolta og körfubolta árið 1960, tólf árum áður en deildarkeppnin í knattspyrnu hófst kvennamegin.

Breiðablik varð fyrsta liðið til að vinna tvöfalt með knattspyrnu þegar Blikar urðu Íslandsmeistarar í körfubolta og knattspyrnu árið 1995.

KR tókst að vinna tvöfalt í körfubolta og knattspyrnu árið 1999 og 2002.

Þá tókst Val að vinna tvöfalt, í handbolta og knattspyrnu árið 2010.

Valskonur urðu Íslandsmeistarar í handbolta í 17. sinn í vor eftir sigur gegn Fram í úrslitunum.
fréttablaðið/sigtryggur ari