Kvennalið Vals í knattspyrnu verður fulltrúi Íslands í Meistaradeild Evrópu á komandi keppnistímabili.

Dregið var í fyrri umferð í forkeppni deildarinnar í morgun og mun Valur mæta finnska liðinu HJK Helsinki á heimavelli sínum að Hlíðarenda.

Eingöngu er leikin ein viðureign á þessu stigi keppninnar þessa leiktíðina en leikurinn mun fara fram annað hvort 3. eða 4. nóvember næstkomandi.

Undirbúningur Valsliðsins fyrir þennan leik verður ekki eins og best verður á kosið en fram til 3. nóvember gilda stíf skilyrði fyrir æfingum liðsins.

Sjö leikmenn Valsliðsins eru þessa stundina staddar í Gautaborg þar sem þeir undirbúa sig undir leik með íslenska landsliðinu gegn Svíþjóð í undankeppni EM 2021 sem spilaður verður þriðjudaginn 27. október.

Valur hefur sent heilbrigðisráðuneytinu beiðni um undanþágu frá gildandi sóttvarnarreglum til þess að fá að halda leikinn. Fáist ekki samþykki á þeirri ósk þarf leikurinn að fara fram erlendis.