Kvennalið Vals í handbolta hefur farið að fordæmi karlaliðs félagsins og dregið lið sitt úr Evrópukeppni þetta keppnistímabilið. Það er vefmiðillinn handbolti.is sem greinir frá þessu.

„Því miður neyðumst við til að skrá okkur úr keppni og leikum því ekki gegn Málaga. Meðan óvissan er þetta mikil í heiminum vegna covid verðum við að láta skynsemina ráða og taka ábyrga afstöðu með velferð allra að leiðarljósi.” segir Ágúst Jóhannsson, þjálfari Valsliðsins í samtali við handbolti.is um ákvörðun félagsins.

Valskonur drógust gegn spænska liðinu Malaga, sem er ríkjandi bikarmeistari, í EHF-bikarnum en nú er ljóst að ekkert verður úr viðureignum liðanna.