Sænska knattspyrnufélagið Häcken hefur fest kaup á bakverðinum Valgeiri Lunddal Friðrikssyni en hann kemur til félagsins frá Val.

Valgeir sem er 19 ára gamall gekk til liðs við Val frá Fjölni fyrir þar síðasta keppnistímabil en á síðustu leiktíð festi hann sig í sessi í vinstri bakverðinum hjá Hlíðarendaliðinu sem varð Íslandsmeistari í haust. Frammistaða hans með Valsliðinu skilaði honum sæti í leikmannahópi U-21 árs landsliðsins á árinu en hann hefur leikið einn leik með liðinu.

Häcken hafnaði í þriðja sæti sænsku úrvalsdeildarinnar á síðasta tímabili og mun þar af leiðandi leika í Evrópudeildinni á komandi keppnistímabili.

„Það hefur verið draumur hjá mér síðan ég var krakki að komast út í atvinnumennsku og reyna fyrir mér í sterkari deild en á á Íslandi. Það er mjög spennandi að spila með liði í sænsku úrvalsdeildinni og svo er ég mjög spenntur fyrir því að leika með liðinu í Evrópukeppni," segir Valgeir sem gerir fjögurra ára samning við félagið.

Þó nokkrar breytingar hafa orðið á leikmannahópi Vals í haust en auk Valgeirs hafa Eiður Aron Sigurbjörnsson og Einar Karl Ingvarsson yfirgefið herbúðir liðsins. Þá er Aron Bjarnason farinn aftur til Ungverjalands eftir lánsdvöl sína á Hlíðarenda. Valur hefur hins vegar fengið til liðs við sig Arnór Smárason, Tryggva Hrafn Haraldsson og Kristófer Jónsson.