Atvinnukylfingurinn Valdís Þóra Jónsdóttir er mætt til Marokkó og tekur þátt í næsta móti á LET-mótaröðinni á fimmtudaginn.

Skagamærin sat hjá á síðasta móti sem fór fram í Jórdaníu þegar hún var stödd á Íslandi að leitast eftir lausnum á bakvandamálum sem hafa verið að plaga Valdísi undanfarna mánuði.

Valdís lék vel á fyrsta hring þessu sama móti í fyrra þegar hún deildi fimmta sæti en henni fataðist flugið og lauk hún mótinu í 61. sæti.

Er þetta fimmta mót Valdísar á Evrópumótaröðinni, næst sterkustu mótaröð heimsins, á þessu tímabili og er Valdís í 59. sæti stigalistans. Besti árangur hennar til þessa er fimmta sætið.