Valdís Þóra Jónsdóttir, GL og Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, GR, eiga góðan möguleika á að komast inn á Ólympíuleikana í Tókýo 202 þegar 500 dagar eru í að leikarnir hefjist.

Þetta kemur fram á heimasíðu Golfsambandsins, golf.is í dag.

Þetta verða aðrir Ólympíuleikarnir í röð sem keppt verður í golfi eftir að ákveðið var árið 2009 að bæta golfi við leikana á næstu tveimur leikum. Þar áður var síðast keppt í golfi á Ólympíuleikunum árið 1904.

Alls komast 60 kylfingar inn á leikana hjá báðum kynjum og eru fimmtán efstu á heimslistanum karla- og kvennamegin öruggir með sæti sitt. Það er hinsvegar kvóti á því hversu margir komast frá einu landi til að tryggja það að fleiri þjóðir fái að senda þáttakenda.

Hver þjóð má aðeins senda fjóra kylfinga til leiks. Á sama tíma er kvóti á því að aðeins tveir kylfingar geta verið frá sama landi sem eru í 16-60. sæti á styrkleikalistanum þegar tilkynnt verður hvaða kylfingar fá þáttökurétt næsta sumar.

Þegar 500 dagar eru í að Ólympíuleikarnir hefjist er Ólafía Þórunn í 53. sæti og Valdís Þóra í 58. sæti kvennamegin sem myndi þýða að þær fengju báðar þáttökurétt í Tókýó ef leikarnir væru að hefjast í dag.