Tímabilinu hjá Valdísi Þóru er lokið eftir að henni tókst ekki að ná í gegnum niðurskurð á lokamóti Evrópumótaraðarinnar á Spáni í dag.

Valdís þurfti að hætta leik á áttundu holu í gær vegna birtuskilyrða og kláraði því annan hring mótsins í morgun.

Hún fékk skramba á annarri holu dagsins en náði sér ekki á strik á seinni níu holum vallarins þar sem hún fékk sex skolla og tvo fugla.

Lék hún báða hringina því á fimm höggum yfir pari og lauk keppni á tíu höggum yfir pari, fjórum höggum frá niðurskurði.

Valdís hefur þó þegar tryggt sér fullan þáttökurétt á Evrópumótaröðinni, sterkustu mótaröð Evrópu, á næsta ári.