Valdís Þóra Jónsdóttir úr GL lenti í 29. sæti á Omega Dubai Moonlight Classic mótinu í golfi sem lauk í Dubai í vikunni þar sem Valdís átti þriðja besta lokahringinn.

Var þetta fyrsta mót atvinnukylfinga sem fór fram undir flóðljósum á sterkustu mótaröð Evrópu.

Skagamærin átti erfitt uppdráttar á öðrum degi en náði að laga stöðuna í dag þegar hún kom í hús á 68 höggum eða fjórum höggum undir pari vallarins.

Lék Valdís allan hringinn án þess að fá skolla né skramba og fékk alls fjóra fugla en aðeins tveir kylfingar léku betur á lokahringnum.

Gabriella Cowley lék best allra á lokahringnum á 66 höggum, Carly Booth lék á 67 höggum og Valdís Þóra á 68. höggum.