Atvinnukylfingurinn Valdís Þóra Jónsdóttir sem leikur fyrir hönd GL frá Akranesi hefur leik í dag á úrtökumóti fyrir LPGA mótaröðina, þá sterkustu í heiminum.

Það eru 360 kylfingar skráðir til leiks á Rancho Mirage-vellinum í Kaliforníu þar sem sextíu efstu kylfingarnir komast á annað stig úrtökumótsins.

Fara þarf í gegnum þrjú úrtökumót til að tryggja sér þáttökurétt fyrir næsta tímabil og fá aðeins 20 kylfingar í lokamótinu fullan keppnisrétt á næsta tímabili.

Þetta er fjórða árið í röð sem Valdís Þóra reynir að komast inn á sterkustu mótaröð heimsins en hún hefur undanfarin ár leikið á Evrópumótaröðinni, þeirri næst sterkustu í heiminum, með góðum árangri.

Komist Valdís Þóra áfram öðlast hún þáttökurétt á næsta stigi úrtökumótsins sem fer fram 12.-17. október á Plantation golfvallasvæðinu í Flórída þar sem 15-25 kylfingar komast áfram á lokastigið.