Valdís Þóra Jónsdóttir, atvinnukylfingur úr GL, deilir 10. sæti ásamt þremur öðrum kylfingum fyrir lokahringinn á úrtökumóti fyrir áströlsku mótaröðina í golfi.

Valdís Þóra lék annan hringinn betur þegar hún kom í hús á pari vallarins og er samtals á einu höggi yfir pari eftir tvo hringi.

Efstu tuttugu kylfingarnir öðlast þáttökurétt á atvinnumannamótaröðinni í Ástralíu og er Valdís með tveggja högga forskot á kylfingana sem deila 16-21. sæti.

Valdís greindi frá því í færslu á Facebook-síðu sinni að hún hefði ákveðið að skrá sig til leiks í úrtökumótið til að fá fleiri möguleika til að komast inn á Opna ástralska meistaramótið sem er hluti af LPGA-mótaröðinni.