Peter Crouch tekur Hermann Hreiðarsson fram yfir Ashley Cole í draumalið sitt í nýjasta hlaðvarpi sínu. Þetta er í annað sinn sem talið berst að Hermanni í hlaðvarpinu en Crouch og David James fóru fögrum orðum um Hermann á dögunum.

Crouch og James léku með Hermanni hjá Portsmouth en Hermann fékk James á sínum tíma til ÍBV.

„Ashley er frábær einstaklingur, í miklu uppáhaldi og heimsklassa leikmaður en Hermann hefur betur hérna. Hann er algjör brjálæðingur og ég elska hann sem einstakling. Auk þess er hann góður varnarmaður. Ég á endalausar sögur af honum,“ segir Crouch sem bætir við að hann sé vongóður um að fá Hermann í þáttinn einn daginn.

„Hann var með þetta víkingaeðli. Hann leið það ekki að leikmenn væru dýfa sér og hélt okkur á teppinu.“

Í hlaðvarpinu er komið inn á að hann sé með frábæra tölfræði í skallaeinvígjum.

„Það sást í augum Hermanns að hann var tilbúinn að hlaupa í gegnum vegg til að vinna einvígið. Það er erfitt sem framherji að takast á við þannig varnarmenn“