Í hvert skipti sem Luis Diaz, sóknarmaður Liverpool spilar í treyju félagsins ber hann merki aðalstyrktaraðila félagsins sem á hlut í fyrirtæki sem er að valda óafturkræfum skaða á heimaslóðum hans í Kólumbíu.

The Athletic hefur undanfarna mánuði skoðað samband breska fjárfestingabankans Standard Chartered, sem er einn af aðalstyrktaraðilum Liverpool, við alþjóðlegu námufyrirtæki sem eru eigendur Cerrejon námunnar í norðurhluta Kólumbíu.

Luis Diaz, leikmaður Liverpool ólst upp á svæðinu, nánar tiltekið í Barrancas sem er tæpum tíu kílómetrum frá Cerrejon námunni.

Í september árið 2020 báðu Sameinuðu þjóðirnar stjórnvöld í Kólumbíu um að hætta starfsemi í námunni eftir að rannsóknir sýndu hana valda alvarlegum skaða á umhverfinu sem og heilsu stærsta frumbyggjasamfélagi landsins, Wayuu ættbálkinum. Í ágúst 2022 var afstaða Sameinuðu þjóðanna ítrekuð af hálfu milliríkjastofnunarinnar um efnahagssamvinnu og framfarir (OECD).

Frá vinnu við Cerrejone námuna
Fréttablaðið/GettyImages

Kvartanir gegn starfsemi í Cerrejon námunni snúast í grundvallaratriðum um tvo meginþætti. Annars vegar námuna sjálfa og áhrif hennar á nærliggjandi bæi, þar með talið Barrancas og Albania. Hins vegar að tæplega 200 kílómetra lestarlínu sem var byggð til að hægt væri að senda kolin frá námunni til Cabo de La Vela strandlengjunnar sem hefur lengi vel verið helgur staður Wayuu ættbálksins.

Leiðtogar Wayuu ættbáksins segja 17 þorp hafa verið færð vegna starfsemi í Cerrejon, því löggjöf sem er í gildi og varði námugröft kveði á um að öll jarðefni og jarðvegur tilheyri ríkinu, óháð því hver býr á landsvæðinu.

Wayuu ættbálkurinn býr í námunda við Cerrejon námuna
Fréttablaðið/GettyImages

Þá hefur rannsókn Sameinuðu þjóðanna leitt í ljós að „íbúar sem búa nálægt námunni … þjáist af höfuðverk, nef- og öndunaróþægindum, þurrum hósta, sviða í augum og þokusýn vegna námuvinnslu í opnum holum sem stunduð er 24 klukkustundir á dag.“

The Athletic segir Standard Chartered hafa lagt rúmlega 7,5 milljarða Bandaríkjadala í starfsemi fyrirtækja sem eiga eignarhlut í Cerrejon-námunni. Þá eigi AXA, annar styrktaraðili Liverpool sem er mjög áberandi á æfingasvæði félagsins, ásamt Standard Chartered samanlagt um 22 milljón Bandaríkjadala hlut í Glencore sem er einn af eigendum námunnar. Þetta segi tölur frá ágúst síðastliðnum til um.