Þýskir fjölmiðlar hafa greint frá því að þarlend handboltafélög hafi hug á því að sameinast um það að koma í veg fyrir að landsliðsmenn félaganna taki þátt í komandi landsliðsverkefnum. Það var handbolti.is sem greindi frá þessu fyrst íslenskra fjölmiðla.

Róbert Geir Gíslason, framkvæmdastjóri handknattleikssmbands Íslands, staðfesti í samtali við handbolta.is að sambandið hefði fengið bréf frá samtökum félagsliða í Þýskalandi þar sem óskað var eftir upplýsingum um það hvernig sóttvörnum yrði háttað hér á landi í kringum leiki Íslands gegn Litháen og Ísrael í undankeppni EM 2022.

Því bréfi hafi verið svarað og von sé á viðbrögðu samtak þýsku félagsliðanna í lok næstu viku. Eins og komið hefur fram hefur HSÍ fengið undanþágu frá gildandi sóttvarnarreglum hér heima til þess að spila téða landsleiki. Leikmenn og forráðamenn íslenska landsliðsins verða í vinnusóttkví á meðan á dvöl þeirra stendur hér í komandi landsliðsverkefnum.

Róbert Geir segir einnig í samtali sínu við handbolta.is að evrópska handboltasambandið sé í samskiptum við samtök þýskra félagsliða um farsæla lausn á málinu. Fari svo að vilji samtaka þýsku félagsliðanna verði hins vegar ofan á mun íslenska liðið leika án níu leikmanna í komandi leikjum.

Það eru þeir Arn­ar Freyr Arn­ars­son, Arn­ór Þór Gunn­ars­son, Bjarki Már Elís­son, Gísli Þor­geir Kristjáns­son, Jan­us Daði Smára­son, Oddur Gretarsson, Ómar Ingi Magnús­son, Viggó Kristjáns­son, og Ýmir Örn Gísla­son. Þá stýrir Guðmundur Þórður Guðmundsson Melsungen og Tomas Svensson er aðstoðarmaður hjá Magdeburg. Spurning er hvort þeim verður einnig settur stóllinn fyrir dyrnar af félögum sínum að koma hingað til lands.