Elohim Prandi, leikmaður franska landsliðsins í handbolta, sem og leikmaður Paris Saint-Germain, hefur verið útskrifaður af sjúkrahúsi eftir að hafa verið stunginn með hnífi á gamlárskvöld.

Þetta staðfestir félag hans Paris Saint-Germain með tilkynningu á samfélagsmiðlum í dag. Prandi hefur eytt undanförnum vikum á sjúkrahúsi þar sem hann hefur fengið aðhlynningu og gengist undir rannsóknir í kjölfar árásarinnar.

Prandi var stunginn í nokkur skipti með hnífi. Málið er til rannsóknar hjá lögregluyfirvöldum.

,,Elohim Prandi, fékk að snúa aftur til síns heima í dag. Eftir nokkra daga hvíld mun leikmaðurinn hefja endurhæfingu undir handleiðslu lækna- og sjúkraþjálfarateymis Paris Saint-Germain. Vonir standa til þess að hann geti snúið aftur á handboltavöllinn eftir nokkrar vikur.

Hnífsstungan varð til þess að Prandi missir af Evrópumótinu í handbolta sem fer fram næstu vikur. Fyrsti leikur Frakklands er gegn Króatíu á morgun.