Ítalskir fjölmiðlar greina frá því að njósnari frá Liverpool hafi verið sendur til Ítalíu að fylgjast með nýstirni Seriu A, Dejan Kulusevski sem spilar með Parma á láni frá Atalanta. Kulusevski, er aðeins 19 ára, hefur þegar komið að átta mörkum í deildinni, skorað þrjú og lagt upp fimm.

Hann er í eigu Atalanta en byrjaði sinn feril í Svíþjóð hjá Brommapojkarna. Hann byrjaði sinn fyrsta leik í janúar en var lánaður í sumar til Parma þar sem hann hefur spilað 13 leiki. Ítalskir fjölmiðlar fara fögrum orðum um hann og hans leikstíl sem er sagður minna á Kevin De Bruyne.

Fjölmörg lið eru sögð hafa áhuga á kappanum og Liverpool er það nýjasta. Þá segir vefsíðan fcinternews að Manchester United sé þegar búið að leggja fram formlegt tilboð upp á 21,5 milljónir punda. Atalanta er sagt vilja nær 30 milljónum.