Ekki er von á þátttakendum frá Rússlandi né Hvíta-Rússlandi á Heimsmeistaramótinu í frjálsum íþróttum sem fer fram í Eugene í Bandaríkjunum í næsta mánuði.

Stjórnarmeðlimur Alþjóðafrjálsíþróttasambandsins ítrekaði að staða sambandsins væri sú sama og undanfarna mánuði þegar hann var spurður út í það af ESPN.

HM í frjálsum fer fram í Bandaríkjunum um miðjan júlí en það er stærsti alþjóðlegi íþróttaviðburðurinn síðan að Vetrarólympíuleikum fatlaðra lauk í febrúar. Von er á um 1800 þátttakendum til Eugene í Portland.

Innrás Rússa í Úkraínu stendur enn yfir og gaf Seb Coe, forseti Alþjóðafrjálsíþróttanefndarinnar, til kynna á dögunum að Rússar yrðu bannaðir frá keppni á meðan innrásinni stendur.