Breska ríkisstjórnin hefur útilokað að veita landsmönnum auka frídag, takist enska landsliðinu að vinna það þýska í úrslitaleik Evrópumótsins á sunnudag.

EM lýkur annað kvöld, þegar England og Þýskaland etja kappi. Þjóðverjar eru margfaldir meistarar en England hefur aldrei unnið stórmót.

Mótið er haldið á Englandi og hafa heimakonur farið á kostum. Liðið hefur heillað ensku þjóðina upp úr skónum. Uppselt er á Wembley, sem tekur 90 þúsund manns, fyrir leikinn á sunnudag.

Orðrómar hafa verið á kreiki um að yfirvöld gætu gefið auka frídag á mánudag. Svo verður þó ekki.

„Öll þjóðin mun styðja liðið áfram og vonandi fá sögufræg úrslit gegn Þýskalandi á sunnudagskvöld. Við munum fagna árangri þeirra,“ segir talsmaður ríkisstjórnarinnar.

„En þó að auka frídagur gæti komið sér vel fyrir suma þá kostar það einnig mikið að bæta honum við.“