Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, segir að ríkisstjórn Bandaríkjanna sé að vinna í því að leysa körfubotakonuna Brittney Griner úr haldi rússnesku lögreglunnar eftir að hún var handtekinn á flugvellinum í Moskvu á dögunum.

Griner sem er ein af bestu körfuboltakonum heims og varð á sínum tíma þriðja konan til að troða í leik í WNBA-deildinni í Bandaríkjunum er í haldi lögreglunnar í Rússlandi.

Að sögn yfirvalda í Rússlandi fannst kannabisolía í farangri Griner sem hefur undanfarin ár leikið utan Bandaríkjanna á milli tímabila í WNBA-deildinni, oftast í Rússlandi.

Blinken var spurður út í málefni Griner í gær þar sem hann sagðist ekki geta tjáð sig um einstök mál en að ríkisstjórnin væri að aðstoða fólk sem væri í haldi í Rússlandi í von um að leysa ágreiningsmál þeirra.

Griner var hluti af liði Phoenix Mercury sem lék til úrslita í WNBA-deildinni í fyrra og hefur tvisvar unnið til gullverðlauna á Ólympíuleikunum með bandaríska liðinu.