Ekki er hægt að túlka tíðindi vikunnar frá Knattspyrnusambandi Íslands öðruvísi en vantraust til Arnars Þórs Viðarssonar.

Á mánudag greindi sparkspekingurinn Mikael Nikulásson frá því að Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður KSÍ, hefði ætlað að ráða Heimi Hallgrímsson til starfa í sumar.

Um leið og það kom fram sendi Fréttablaðið fyrirspurn á Vöndu, fyrstu viðbrögð sambandsins bentu til þess að þessar sögur væru á rökum reistar.

Svarið kom svo tveimur sólarhringum seinna þar sem Vanda staðfestir að hafa fundað með Heimi.Arnar Þór hafði ekki hugmynd um þá staðreynd að það hefði staðið tæpt að hann yrði rekinn úr starfi.

Arnar fékk aðeins veður af því degi eftir sinn besta leik í starfi. Óvíst er hvaða áhrif það hefur á Arnar í starfi að vita að formaður sambandsins íhugaði það mjög alvarlega að reka hann úr vinnunni í sumar.

Arnar hefur auðvitað ekki verið vinsæll í starfi en síðustu leikir hafa bent til þess að hann sé á réttri leið.

Það er í tísku í dag að vera illa við Arnar en hafa skal í huga öll þau verkefni sem hann hefur fengið í hendurnar og nánast verið látinn tækla einn.

Formenn sambandsins í þjálfara­tíð Arnars hafa verið fljótir að hlaupa í felur í öllum þeim erfiðu málum sem sambandið hefur tekist á við.

Nú síðast þegar Arnar valdi síðasta landsliðshóp.Íslendingar hefðu margir hverjir viljað fá Heimi aftur til starfa en það er óþægilegt fyrir einstakling sem er í vinnu að frétta af því í gegnum fjölmiðla að yfirmaður þinn íhugaði að reka þig úr starfi.

Málið er óheppilegt og gæti haft áhrif til framtíðar.