Utan vallar eru skoðanapistlar

Aron Guðmundsson skrifar frá Lundúnum

Ég hef undanfarnar vikur fylgst náið með undirbúningi Gunnars Nelson sem mun í kvöld snúa aftur í bardagabúrið eftir rúmlega tveggja ára fjarveru. Meiðsli hafa hamlað þátttöku Gunnars í UFC undanfarin ár og þá hefur kórónuveirufaraldurinn einnig spilað stórt hlutverki í því að Gunnar er fyrst núna að snúa aftur í búrið.

Ég hitti Gunnar fyrst fyrir rúmri viku síðan þegar að ég tók við hann viðtal fyrir helgarblað Fréttablaðsins. Á móti mér tók maður sem virðist vera á hárréttum stað, andlega og líkamlega fyrir komandi bardaga.

Verkefnið framundan er hins vegar erfitt. Gunnar kemur inn í bardaga kvöldsins eftir að hafa tapað tveimur síðustu bardögum sínum. Þess ber þó að geta að þau töp voru á móti Leon Edwards og Gilbert Burns sem eru báðir að berjast á toppi veltivigtarinnar núna.

Núna er gullið tækifæri fyrir Gunnar til þess að minna aftur á sig. Við þurfum staðfasta og örugga frammistöðu frá honum, frammistöðu sem vekur athygli og kemur honum aftur í umræðuna innan veltivigtardeildarinnar.

Gunnar skrifaði undir nýjan fimm bardaga samning við UFC fyrir fáeinum mánuðum og vegferð þess samnings hefst í kvöld. Hann mun hafa höllina með sér og þó hann hefði það ekki þá verða um það bil 500 íslendingar í O2-höllinni sem geta yfirgnæft þúsundir.

Einhverjir hafa áhyggjur af því að það muni taka tíma fyrir Gunnar að finna sig á ný í búrinu eftir svo langa fjarveru, að hann muni þjást af því sem að á ensku er kallað ring rust. Þessar áhyggjur liggja ekki hjá Gunnari og hans teymi.

Þá ber að hafa í huga að andstæðingur Gunnars, Japaninn Takashi Sato hefur ekki keppt síðan í nóvember árið 2020. Þennan tíma er hægt að nota til þess að vinna í nýjum hlutum, skerpa styrkleikana og reyna að koma í veg fyrir veikleika.

Það verður því afar spennandi að sjá hvernig Gunnar Nelson við fáum í kvöld. Eitt er víst og það er að hann kemur inn í bardaga kvöldsins í toppformi, meiðslafrír og með hausinn rétt skrúfaðan á.